Innlent

Lóðaverð nýtt sem tekjustofn

"Það er ánægjulegt að það verði skoðað hvernig koma á í veg fyrir að sveitarfélögin stuðli að hækkun fasteignaverðs," sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður í utandagskrárumræðum á Alþingi í gær um þróun fasteignaverðs. Komu þar fram ýmis sjónarmið en allir fögnuðu þeirri ákvörðun Árna Magnússonar félagsmálaráðherra að láta fara fram rannsókn á orsökum þess fasteignaverðs sem er við lýði í dag. Málshefjandi var Guðlaugur Þór Þórðarson úr Sjálfsstæðisflokki en hans mat var að lóðaverð væri ein meginorsök mikilla hækkana fasteignaverðs. "Ég vil vekja athygli á því að R-listinn er núna að braska með lóðir í Norðlingaholti með einkaaðilum og hafa grætt rúmar 800 milljónum króna." Félagsmálaráðherra lét hafa eftir sér að lóðaúthlutun ætti ekki að vera sveitarfélögum tekjustofn og væri það einn sá þáttur sem rannsakaður yrði í úttekt þeirri sem hann hefur falið Rannsóknasetri í húsnæðismálum að gera á fasteignamarkaðnum. Nokkrir þingmenn bentu á tilkomu 90 prósent lána Framsóknarflokksins sem ástæðu verðhækkana en ráðherra svaraði því til að full þverpólitísk sátt hefði verið um frumvarpið og enginn hreyft andmælum þegar það var samþykkt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×