Innlent

Sakar R-listann um lóðabrask

Guðlaugur Þór Þórðarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sakaði Reykjavíkurlistann um að hagnast á lóðabraski í borginni við utandagskrárumræður um þróun íbúðaverðs. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hóf umræðu um þróun íbúðaverðs og gerði lóðaverð í Reykjavík meðal annars að umtalsefni. Hann sagði ástæður þess að íbúðaverð hefði hækkað ekki allar slæmar, þar á meðal aukinn kaupmáttur og greiðari aðgangur að lánsfé. Hins vegar gætu opinberir aðilar gert ýmislegt, til að mynda væri viðvarandi lóðaskortur í Reykjavíkurborg. Margir þingmenn tóku þátt í umræðunni en fáir tóku undir það að lóðaverð í Reykjavík væri jafn stór áhrifavaldur í þróun íbúðaverðs og frummælandi hélt fram. Bankarnir voru sakaðir um brask og ríkisstjórnin jafnvel sökuð um að hafa þrýst upp verðinu með aðgerðum í húsnæðismálum. Guðlaugur sagðist vilja vekja athygli þeirra þingmanna sem talað hefðu um brask á því að R-listinn hefði braskað með lóðir í Norðlingaholti með einkaaðilum. „Og hvað skyldu þeir hafa grætt? Einar til tvær milljónir? Nei, rúmlega 800 milljónir á lóðabraski,“ sagði Guðlaugur og benti á að á sama hátt hefði hækkun á fasteignamati og hækkun fasteignaskatta, afleiðingar lóðaskortstefnunnar, aukið tekjur Reykjavíkurborgar af fasteignagjöldum um 114 prósent. Því þyrfti ekki bara að taka til hendinni á Alþingi heldur líka hinum megin við Vonarstrætið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×