Innlent

Færri tækifæri fyrir konur

Verkefnaval íslensku friðargæslunnar hefur verið með þeim hætti að mjög hallar á hlut kvenna að mati Kolbrúnar Halldórsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, en samþætting jafnréttissjónarmiða í friðargæslu Íslendinga var rætt utandagskrár á þingi í gær. Tilefnið var ný skýrsla um stöðu kvenna innan friðargæslunnar þar sem fram kemur að konum sem þar starfa hefur fækkað til muna hin síðari ár. Fór hlutfall þeirra niður í fjórtán prósent á síðasta ári og var það mat Kolbrúnar að ástæðan væri fyrst og fremst verkefnaval Íslendinga en friðargæslan hefur að undanförnu haft umsjón með tveimur flugvöllum. Davíð Oddsson utanríkisráðherra svaraði því til að gott og þarft væri að taka jafnréttissjónarmið upp með þessum hætti en sagði Íslendinga litlu ráða um verkefnaval heldur væri undantekningarlítið óskað eftir kröftum hennar við sértæk verkefni og umsjón flugvalla hefði verið efst á baugi upp á síðkastið. Sagði hann að ráðuneytið myndi skoða þessi mál gaumgæfilega í framhaldinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×