Innlent

Telur þingmennsku styrkja framboð

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir telur að það styrki framboð sitt til formanns Samfylkingarinnar að hún taki við þingmennsku í haust því að það hafi verið notað sem rök gegn framboðinu að hún sitji ekki á Alþingi. Ákvörðun Bryndísar Hlöðversdóttur um að láta af þingmennsku 1. ágúst var kynnt þingflokki Samfylkingarinnar í dag. Þingmenn segjast sjá mikið eftir Bryndísi. Margrét Frímannsdóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir þó að hún hljóti að fagna því að Bryndísi standi til boða að staða eins og deildarforsetastaðan sem sýni hversu málefnalega og heiðarlega hún hafi starfað. Hún sé þekkt af því og ef svo væri ekki stæði henni aldrei til boða staða eins og þessi. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir mun taka við þingmennsku af Bryndísi. Hún segir að afsögn Bryndísar tengist ekki átökum um formannsembættið á nokkurn hátt. Hún sjái mikið eftir Bryndísi sem hafi verið kjölfesta í þingflokknum. Ingibjörg segir enn fremur að þetta sé mikil ögrun og spennandi verkefni fyrir Bryndísi að takast á við og sýni það að gott fólk eigi alltaf margra kosta völ. Aðspurð hvort lagt hafi verið að Bryndísi að hætta á einn eða annan hátt segir Ingibjörg það af og frá. Það sé fráleitt að vera með samsæriskenningar í því efni. Því í ósköpunum eigi fólk sem gegni veigamiklu starfi og geri það vel gefa það eftir. Aðspurð hvort hún telji að ákvörðun Bryndísar styrki stöðu hennar í formannsslag Samfylkingarinnar segir Ingibjörg að það megi frekar orða það þannig að það hafi verið talinn veikleiki á framboði hennar, og hún sé ekki endilega sammála því, að hún ætti ekki sæti á þingi. Sú röksemdarfærsla hljóti nú að vera úr sögunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×