Innlent

Vanþóknun á fréttamönnum

"Ég lít það afar alvarlegum augum að starfsmenn Ríkisútvarpsins skuli haga sér með þessum hætti," segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra vegna aðgerða fréttamanna Ríkisútvarpsins í gær. Hún segir það ekki hæfa þeim að nota útvarpið sem áróðurstæki og aðgerðir þeirra alltof róttækar. Þorgerður segist skilja að nokkru leyti gremju fréttamanna á Ríkisútvarpinu en það afsaki ekki þá hegðun þeirra að fella niður fréttatíma. "Persónulegar skoðanir starfsmanna mega ekki bitna á dyggum hlustendum stöðvarinnar víða um land. Útvarpið hefur öryggishlutverki að sinna og með þessum aðgerðum hafa þeir dregið úr trúverðugleika Ríkisútvarpsins. Það verður að hafa í huga að þó að Bogi Ágústsson hafi mælt sérstaklega með fimm samstarfsmönnum sínum þá taldi hann einnig alla tíu umsækjendur hæfa og mín skoðun er sú að það hafi verið afar erfitt fyrir útvarpsstjóra að taka ekki mark á tillögu útvarpsráðs." Menntamálaráðherra segir að þetta sýni enn og aftur að brýn þörf sé á að endurskoða hlutverk stofnunarinnar. "Það er það sem ég hef verið að beita mér fyrir undanfarið en í þessu er ljóst að meirihluti útvarpsráðs sinnti skyldum sínum en minnihlutinn ekki. Lagaramminn er þó skýr og honum ber að fara eftir."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×