Innlent

Meirihlutinn springur í annað sinn

Meirihlutinn í bæjarstjórn Blönduóss er sprunginn. Þetta er í annað sinn á kjörtímabilinu sem mynda þarf nýjan meirihluta. H-listi vinstri manna og óháðra sleit í gær meirihlutasamstarfi við bæjarmálafélagið Hnjúka, Á-lista, í bæjarstjórn Blönduósbæjar. Að sögn Valgarðs Hilmarssonar, oddvita H-listamanna, var það einhliða ákvörðun Valdimars Guðmannssonar, oddvita Á-listans, að setja í gang vinnu við undirbúning þjónustuhúss við tjaldstæði bæjarins sem gerði útslagið. Valgarður segir að ekki hafi verið búið að ákveða endanlega í bæjarstjórn hvernig þetta yrði gert og H-lista menn hafi ekki endilega verið sammála Valdimari, sem er formaður bæjarráðs, um hvaða útfærsla væri sú besta. Sjö eru í bæjarstjórn Blönduósbæjar, þrír frá H-lista, tveir frá Á-lista og tveir frá Sjálfstæðisflokki. Á-listi og Sjálfstæðismenn mynduðu meirihluta eftir síðustu kosningar en það samstarf stóð aðeins í þrjátíu og átta daga. Það er því aðeins ein möguleg samsetning meirihluta eftir og að sögn Valgarðs standa viðræður fulltrúa H-lista og Sjálfstæðisflokks yfir núna og er hann bjartsýnn á að flokkarnir nái saman fljótlega. Ekki náðist í Valdimar Guðmannsson, oddvita Á-listans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×