Innlent

Aðeins bráðabirgðalausn

"Þó að einhverjir sveitarstjórnarmenn séu tilbúnir að skrifa upp á þennan samning þá er mikil almenn óánægja með þessa niðurstöðu," segir Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði. Lúðvík er einn fulltrúa sveitarfélaga í tekjustofnanefnd ríkis og sveitarfélaga en félagsmálaráðherra kynnir niðurstöður hennar á Alþingi í dag. Lúðvík segist óhress með þær bráðabirgðalausnir sem felast í þeim tillögum sem gerðar eru og hefur skilað séráliti. "Að mínu viti ganga þessar hugmyndir alls ekki nógu langt. Stefna sveitarfélaganna var sú þegar gengið var til borðs að ná fram réttlæti og eðlilegri tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Bæta þannig slæman hag sveitarfélaganna þannig að máli skipti til framtíðar en ekki til bráðabirgða. Hér eru menn hins vegar aðeins að horfa til næstu tveggja til þriggja ára." Lúðvík segir fleiri vera vonsvikna með störf nefndarinnar enda hafi verið meira kapp en forsjá í mörgum þeim sveitarstjórnarmönnum sem skrifuðu undir samninginn. "Þegar menn horfa til uppstokkunar á sveitarstjórnarstiginu, fækkun sveitarfélaga, tilfæringu enn fleiri og stærri verkefna til sveitarfélaganna þá verður að byggja grunninn í upphafi með þeim hætti að auðvelt sé að stíga næstu skref. Þessi litli áfangi sem nú er samkomulag um breikkar ekki að mínu viti almennan tekjustofn sveitarfélaganna og það sætti ég mig engan veginn við." Fram kemur á vef Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra á Ísafirði, að þó útkoman standist ekki væntingar þær er sveitarfélögin hafi gert í upphafi hafi engu að síður tekjuaukning náðst og sérstaklega eigi það við um þau sveitarfélög sem glími við erfiðan rekstur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×