Innlent

Lægri sektir fyrir fyrsta brot

Sektir við brotum gegn fjórum lagabálkum um fiskveiðar geta lækkað verulega eftir að Alþingi samþykkti frumvarp Örlygs Hnefils Jónssonar, varaþingmanns Samfylkingar, um að fella niður lágmarkssektir fyrir fyrsta brot gegn lögum um fiskveiðar. Lágmarkssekt var áður 400 þúsund krónur á hvert brot og verður það áfram fyrir ítrekuð brot. Fyrir fyrsta brot má eftir lagasetninguna dæma menn til lægri sektargreiðslu. "Það er réttarbót að opna refsirammann og fella lágmarkið niður þannig að dómendur geti skoðað hvert einstakt tilvik og ákveðið refsingu í samræmi við brotið, hvernig það bar að og þá hagsmuni sem voru í húfi," segir Örlygur Hnefill. Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, segir lagasetninguna stórt skref í rétta átt en telur þó margt ógert til að draga úr óréttlæti laganna. "Ég hlýt að gera þá kröfu til refsilaga að þau miði við eðli hvers brots fyrir sig en ekki númer hvað í röðinni það er," segir hann og vísar til þess að við annað brot er lágmarkssekt 400 þúsund krónur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×