Innlent

Vilja ekki hækka leikskólagjöld

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja falla frá hækkunum á leikskólagjöldum sem samþykktar voru af R-listanum fyrir fjórum mánuðum. Þetta kom fram í bókun sem lögð var fram í borgarráði í gær vegna umræðu um gjaldskrá leikskóla á fundinum. Þar kemur meðal annars fram að tillögurnar sem R-listinn kjósi ranglega að kalla gjaldfrjálsan leikskóla séu bæði illa ígrundaðar og framsettar með þeim hætti að Reykvíkingar geti ekki áttað sig á því sem þær raunverulega boði. Þetta sé ódýr kosningabrella sem ekki sé hægt að samþykkja. Þá sé lækkun leikskólagjalda alls ekki á næsta leyti í Reykjavík. Einungis hafi verið tímasett hvenær eigi að bjóða 5 ára börnum slíka þjónustu, en með öllu óljóst hvenær slík þjónusta muni standa öllum reykvískum leikskólabörnum til boða. Þá er bent á að leikskólabörnum hafi fækkað um 536 á tíu árum en á sama tíma hafi þeim fjölgað um 536 í Kópavogi. Ljóst sé að fjöldi barnafjölskyldna hafi kosið að flytja úr borginni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×