Innlent

Fagnaðarefni fyrir alla

"Persónulega vil ég sjá Davíð sem lengst í stóli formanns enda frábær stjórnmálamaður í alla staði," segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra aðspurð um þá ákvörðun Davíðs Oddssonar að bjóða sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins til næstu tveggja ára á næsta landsfundi. Fréttablaðið náði tali af þremur samflokksmönnum Davíðs vegna málsins og fögnuðu þau Þorgerður Katrín og Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri flokksins ákvörðuninni. Þorgerður undraðist alla umræðu um málið enda aldrei komið til umræðu að Davíð léti af störfum formanns. "Mestu máli skiptir auðvitað að hann er að ná heilsu og sínum fyrri styrk á nýjan leik eftir þessi erfiðu veikindi sem hann hefur gengið gegnum og á eftir að láta að sér kveða áfram í framtíðinni." Kjartan Gunnarsson sagðist aldrei hafa reiknað með neinu öðru en að Davíð héldi áfram formennsku og fagnaði því. "Ég hef aldrei heyrt um annað talað en að hann haldi áfram góðum störfum sínum fyrir flokkinn og það er fagnaðarefni fyrir alla." Geir Haarde, fjármálaráðherra og varaformaður flokksins, tjáði sig ekki þegar eftir því var leitað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×