Innlent

Vill að ákvörðun verði endurskoðuð

Friðargæsluliðar eru aldrei í fríi, segir utanríkisráðherra, og hvetur til þess að hrundið verði þeirri ákvörðun að synja þeim sem særðust í sjálfsmorðsárásinni í Kabúl um bætur frá Tryggingastofnun. Fram kom í fréttum í gær að íslensku friðargæsluliðarnir sem særðust í sjálfsmorðsárás í Afganistan í fyrra fengju ekki bætur frá Tryggingastofnun þar sem þeir hefðu ekki verið í vinnunni þegar árásin var gerð. Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri - grænna, tók þetta mál upp í umræðum um utanríkismál í þinginu í dag. Davíð Oddsson utanríkisráðherra sagði það misskilning að mennirnir hefðu verið ótryggðir þótt þeir hefðu ekki verið taldir falla undir bótareglur Tryggingastofnunar. Mennirnir væru auðvitað tryggðir. Í greinargerð sem Tryggingastofnun sendi frá sér í dag kemur fram að allir ríkisstarfsmenn séu tryggðir allan sólarhringinn hvort sem þeir eru í vinnu eða utan hennar. Sú trygging sé í umsjón ríkislögmanns. Einnig hafi utanríkisráðuneytið upplýst að allir friðargæsluliðar séu tryggðir sérstaklega á vegum ríkisins þegar þeir séu erlendis vegna starfa sinna. Í þinginu sagði Davíð það lakara Tryggingastofnun hefði synjað friðargæsluliðunum um bætur á grundvelli svara frá utanríkisráðuneyti. Hann teldi fyrir sitt leyti að þeir væru aldrei í neinu fríi heldur yrðu allar stundir að vera viðbúnir hinu óvænta og þegar þeir fengju tilmæli um að gegna ákveðnum störfum væri það ekki svo að menn gætu undan því vikist með góðu móti. Hann væri því þeirrar skoðunar að þeir sem særðust í sjálfsmorðsárásunum hefðu ekki verið í neinu fríi. Hann vildi gjarnan og vonaðist til að við áfrýjun málsins yrði tekið á málum þeirra af meiri sanngirni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×