Innlent

Friðargæslumenn aldrei í fríi

Davíð Oddsson utanríkisráðherra telur að íslensku friðargæsluliðarnir, sem slösuðust í sprengjuárás í Kabúl í Afganistan í fyrra, eigi rétt á bótum. Fram kom í máli hans á Alþingi í gær að friðargæslumennirnir hefðu verið tryggðir en bótaskylda vegna meiðsla þeirra hefði verið véfengd. Gert er ráð fyrir að máli þeirra verði skotið til úrskurðarnefndar almannatrygginga. Davíð sagði að friðargæslumenn væru aldrei í fríi og þyrftu alltaf að vera viðbúnir hinu óvænta. Þegar þeir fengju tilmæli um að gegna ákveðnum störfum gætu þeir ekki vikist undan því með góðu móti. "Þannig að ég er þeirrar skoðunar að þeir hafi ekki verið í neinu fríi og vil gjarnan og vonast til að við áfrýjun málsins verði tekið á málum þeirra af meiri sanngirni". Íslensku friðargæsluliðarnir urðu fyrir árás á götu í Kabúl í fyrrahaust þar sem þeir stóðu vörð fyrir utan teppabúð í fjölfarinni verslunargötu. Afgöngsk stúlka og bandarísk kona létu lífið í sprengjuárásinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×