Innlent

Samstaða um umsókn í Öryggisráðinu

Forsætisráðherra segir fulla samstöðu hafa verið milli stjórnar og stjórnarandstöðu um að sækjast eftir sæti í Öryggisráðinu. Það hafi ekki verið mistök. Verið er að skoða kostnað við framboðið en endanleg ákvörðun liggur ekki fyrir. Hann segir utanríkisþjónustuna skrifa meira á reikning framboðsins en efni séu til. Davíð Oddsson utanríkisráðherra lýsti því yfir á föstudag að vaknað hefðu áleitnar spurningar varðandi kostnað við framboð til Öryggisráðsins sem væri samkvæmt kostnaðaráætlun um 600 milljónir króna. Kostnaðurinn gæti svo orðið enn meiri yrði kosningabaráttan hörð. Útkoman væri óviss og verið væri að skoða í utanríkisráðuneytinu hvort farið yrði af stað með framboðið eða ekki. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segir málið ósköp einfalt. Ljóst sé að þrjú lönd sækist eftir tveimur sætum í Öryggisráðinu og því þurfi að fara í kosningabaráttu til að fá sæti í ráðinu. Nú sé verið að skoða málið Hann segir að full samstaða hafi verið um það milli allra flokka á sínum tíma að ráðast í framboðið og segir það síður en svo hafa verið mistök, enda vilji Íslendingar vera jafnokar Norðurlandanna í utanríkismálum. Hann vill ekki svara því hvað sé ásættanlegur kostnaður. Hann vill heldur ekki svara því hversu miklu sé búið að kosta nú þegar til málsins. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×