Innlent

Stimpilgjöldin hortittur

Sama dag og fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna höfnuðu því að afgreiða þingmál um afnám stimpilgjalda af endurfjármögnun lána, kallaði forsætisráðherra þau hortitt í íslensku skattakerfi. Það sagði hann í ræðu á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins sem fram fór í dag. Góðum árangri og útrás íslenskra fyrirtækja var fagnað á aðalfundinum í dag. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra sagði óumdeilt að staða efnahagsmála væri góð. Lægri skattar á atvinnulífið hefðu skilað sér í auknum hagnaði fyrirtækja, sem skapað hefðu svigrúm til að lækka skatta á einstaklinga. Enn mætti þó gera betur. Halldór sagðist fullkomlega meðvitaður um að skattkerfið væri ekki fullkomið og hefði aldrei verið. Enn væru ýmsir hortittir við lýði, s.s. stimipilgjöldin og ýmis vörugjöld, og eins þyrfti að lækka tekjuskatt einstaklinga meira. Hvenær það yrði að veruleika lét forsætisráðherra ósagt, en tók fram að ef skattar eru ekki lækkaðir þegar efnahagslífið er í uppsveiflu, þá verði það einfaldlega ekki gert. Þrátt fyrir uppsveiflu í viðskiptalífinu segir forsætisráðherra þó ljóður vera á: Þau miklu átök sem virðast vera um yfirráð í fyrirtækjum, í stað þess að aðaláhersla sé lögð á að bæta fyrirtækin. Hann kvaðst telja að bankarnir blönduðu sér um of í átökin, kaupi yfirráð og selji, og nýir aðilar taki við með miklar skuldir við bankana. Fyrirtækum fari fækkandi og hlutabréfamarkaðurinn sé að verða fábreyttari sem þjóni ekki hagsmunum þjóðfélagsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×