Innlent

Vilja ekki hella olíu á eldinn

Fjárhagslegir hagsmunir ríkissjóðs og ótti við að hella olíu á eldinn réð því að þingflokkar ríkisstjórnarinnar höfnuðu því að hleypa í gegn frumvarpi um að afnema stimpilgjald við endurfjármögnun lána. Pétur Blöndal, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, hafði lýst því yfir að hann ætlaði að kanna vilja þingflokka fyrir því að samþykkja frumvarp Margrétar Frímannsdóttur um afnám stimpilgjalds við endurfjármögnun lána. Pétur segir að í báðum stjórnarflokkunum hafi málinu verið hafnað ásamt tveimur öðrum þingmannamálum sem hann kannaði einnig stuðning við. Þeim hafi verið hafnað með þeim rökum að það lægju svo mörg mál fyrir þinginu nú þegar að það næðist varla aðgreiða þau. Þá hafi menn bent á það varðandi stimpilgjaldið að það væri hlutverk ríkisvaldsins að gæta stöðugleika. Menn óttist að hin nýju lánaform hækki íbúðaverð og valdi vandræðum og því væri það eins og að hella olíu á eldinn að taka burt þann þröskuld sem fara þyrfti yfir þegar menn skuldbreyti. Þá hafi ríkissjóður af stimpilgjaldinu töluverðar tekjur, en þessi sjónarmið hafi orðið ofan á þó að flesti séu sammála um að skatturinn sé skrítinn. Pétur telur að stimpilgjaldið sé örugglega ofarlega á lista þeirra skatta sem menn ætli sér að skoða og lækka á næstunni. Skattar hafi verið lækkaðir mjög mikið á fyrirtæki og almenning að undanförnu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×