Innlent

Vildi bara styðja Ingibjörgu

Helga Jónsdóttir, borgarritari og fyrrverandi aðstoðarkona Steingríms Hermannssonar, gekk eingöngu í Samfylkinguna til þess að styðja Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í formannskjöri flokksins. Nafn Helgu átti hvergi að koma fram en það komst í hendur stuðningsmanna Össurar Skarphéðinssonar og í kjölfarið var starfsmanni á skrifstofu flokksins sagt upp störfum. Helga var á árum áður aðstoðarkona Steingríms Hermannssonar, þáverandi forsætisráðherra, og faðir hennar sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn. Í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 sagðist hún einvörðungu hafa skráð sig í Samfylkinguna til þess að hafa áhrif á úrslitin í formannskjörinu. Hún hefði ekki tekið beinan þátt í stjórnmálastarfi í nærri tvo áratugi og það myndi ekki breytast nú. Aðspurð segist Helga ekki vera skráð í Framsóknarflokkinn og þó að hún hafi skráð sig í Samfylkinguna ætli hún sér ekki að bjóða sig fram til trúnaðarembætta fyrir flokkinn. Söndru Franks, varaþingmanni og starfsmanni á skrifstofu Samfylkingarinnar, var í gær sagt upp störfum á skrifstofunni eftir að í ljós kom að hún braut vinnureglur flokksins við meðferð á gögnum. Samkvæmt heimildum fréttastofu bárust kvartanir frá stuðningsmönnum Ingibjargar Sólrúnar, eftir að Helga fékk boð frá starfsstöð Össurar Skarphéðinssonar um að mæta í sumarfagnað hjá honum. Hún hafði þá nýlega gengið í Samfylkinguna til þess að styðja Ingibjörgu Sólrúnu með þeim skilyrðum að nafn hennar kæmi hvergi fram. Því þótti stuðningsmönnum Ingibjargar einsýnt að átt hefði verið við kjörskrá flokksins og fljótlega bárust böndin að Söndru, sem var svo sagt upp í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×