Innlent

Ávarpaði leiðtogafund Evrópuráðs

Davíð Oddsson utanríkisráðherra ávarpaði í dag leiðtogafund Evrópuráðsins sem stendur yfir í Varsjá í Póllandi. Í máli utanríkisráðherra kom fram að eining Evrópu væri háð lýðræði og virðingu fyrir mannréttindum og grunnvallarreglum réttarríkisins. Hér hefði Evrópuráðið einstöku hlutverki að gegna. Utanríkisráðherra lagði áherslu á mikilvægi Mannréttindadómstóls Evrópu og lykilhlutverk hans í starfi Evrópuráðsins. Jafnframt vakti utanríkisráðherra athygli á brýnni þörf fyrir umbótum á störfum dómstólsins, sérstaklega í ljósi gífurlegrar aukningar á málum sem berast til hans. Þá vakti ráðherra athygli á að dómstóllinn hefði á síðari árum verið að breytast í einskonar áfrýjunardómstól jafnvel í málum sem ekki tengdust beint mannréttindabrotum. Hann sagði að dómstóllinn ætti að leggja megin áherslu á mál sem varða grundvallar mannréttindi. Á leiðtogafundinum undirritaði ráðherra þrjá samninga sem gerðir hafa verið á vettvangi Evrópuráðsins. Þetta eru samningur gegn hryðjuverkum, samningur sem tekur á fjármögnun hryðjuverkastarfsemi og samningur um aðgerðir gegn mansali.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×