Innlent

Vill reisa álver á Norðurlandi

Bandaríska álfyrirtækið Alcoa hefur lýst formlega áhuga sínum á að reisa álver á Norðurlandi. Fyrirtækið hefur sent íslenskum stjórnvöldum bréf þar sem lýst er áhuga á að vinna með íslenskum stjórnvöldum og sveitarfélögum á Norðurlandi að hugsanlegri byggingu álvers þar. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra kynnti bréfið á ríkisstjórnarfundi í morgun. Í bréfinu kemur fram að stjórnendur Alcoa geri sér grein fyrir því, að framkvæmdir við hugsanlegt álver fyrir norðan geti ekki hafist fyrr en í fyrsta lagi árið 2008 vegna stöðu annarra framkvæmda hér á landi. Einnig sé ljóst að verkefnið verði að vera áfangaskipt. Að sögn Valgerðar nefnir Alcoa ekki tiltekna stærð eða staðsetningu en hún segir að þetta sé í fyrsta skipti sem formlegt erindi berist frá álfélagi um byggingu álvers á Norðurlandi. Hún sagði við Morgunblaðið að hún hefði ætlað að kynna minnisblað á ríkisstjórnarfundinum um stöðu undirbúnings og rannsókna vegna hugsanlegs álvers á Norðurlandi, sem hún og gerði, en hún kynnti þetta bréf einnig á fundinum, enda væri málið komið á nýtt stig eftir að þetta formlega erindi barst. Valgerður segir að margvíslegar rannsóknir þurfi að fara fram og bera þurfi saman upplýsingar áður en fagfjárfestirinn geti tekið ákvörðun sína. Þó liggi t.d. fyrir að á Húsavík sé góð hafnaraðstaða og bærinn hafi margt fram að færa. Rannsóknir hafi einnig farið fram í Eyjafirði en í Skagafirði séu rannsóknir hins vegar skemmra á veg komnar. Valgerður sagði að tímasetningin 2008 henti í sjálfu sér ekki illa því þá sé gert ráð fyrir að fjórða áfanga stækkunar Grundartangaálversins verði lokið og starfsemi hafin í álverinu í Reyðarfirði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×