Innlent

Umbætur á Mannréttindadómstól

Á leiðtogafundinum undirritaði utanríkisráðherra þrenna samninga á vegum Evrópuráðsins, einn gegn hryðjuverkum, annan sem tekur á fjármögnun hryðjuverkastarfsemi og í þriðja lagi samning um aðgerðir gegn mansali. Davíð Oddsson utanríkisráðherra sagði í ávarpi á leiðtogafundi Evrópuráðsins í Varsjá í gær að brýn þörf væri á umbótum á störfum Mannréttindadómstóls Evrópu í ljósi gífurlegrar fjölgunar mála sem til hans berast. Hann sagði að Ísland væri fylgjandi því að komið yrði á fót vettvangi þar sem farið yrði yfir þessi mál. Þar ætti að hafa að leiðarljósi að Mannréttindadómstóllinn veldi mál sín af kostgæfni. "Dómstóllinn ætti að forðast að verða áfrýjunardómstóll í öllum málum sem rísa milli borgaranna og ríkisvaldsins. Hann á að einbeita sér að málum sem snerta brot á grundvallar mannréttindum," sagði Davíð. Hann taldi að aðildarríki Evrópuráðsins gætu stuðlað að því að draga úr fjölda umsókna og málafjölda sem dómstólnum berast meðal annars með því að bæta þekkingu dómstóla sinna á fordæmisgildi í rétti Mannréttindadómstólsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×