Innlent

Sagðir á leið í sendiherrastörf

Guðmundur Árni Stefánsson er að hætta sem alþingismaður til að gerast sendiherra. Sterkur orðrómur er einnig um að Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri verði skipaður sendiherra. Heimildarmenn búast við að tilkynnt verði um skipan þeirra nú um mánaðamótin. Báðir segjast hins vegar koma af fjöllum. Fréttastofa Stöðvar 2 telur sig hafa traustar heimildir fyrir því að ákveðið sé að Guðmundur Árni Stefánsson verði sendiherra í Svíþjóð og taki þar við af öðrum fyrrverandi ráðherra, Svavari Gestssyni sem taki við sendiherrastarfi í Kaupmannahöfn af Þorsteini Pálssyni sem hefur ákveðið að láta af störfum í haust. Á sama tíma er búist við að tveir aðrir fyrrverandi ráðherrar láti af sendiherraembætti, þeir Jón Baldvin Hannibalsson og Kjartan Jóhannsson. Þá er búist að Eiður Guðnason hætti sem sendiherra um næstu áramót. Guðmundur Árni Stefánsson sagðist í dag koma af fjöllum þegar hann var spurður hvort rétt væri að hann væri að verða sendiherra. Sterkur orðrómur er einnig um að Markús Örn Antonsson útvarpstjóri verði skipaður sendiherra. Þegar Markús var spurður um þetta í dag kvaðst hann svara eins og Guðmundur Árni, að hann kæmi af fjöllum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×