Innlent

Samfylking í lið Vinstri-grænna

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur er margklofin í afstöðu til þess hvort Orkuveitan eigi að taka þátt í orkusölu til álversins í Helguvík. Fulltrúi Samfylkingar mun að líkindum leggjast í lið með fulltrúa Vinstri-grænna í afstöðunni gegn álveri í Helguvík. "Eftir eitt til tvö álver verður þak Kyoto-samkomulagsins fyllt. Ég hef sagt það við mína félaga að við eigum ekki að blanda Orkuveitunni í það kapphlaup sem getur skapast vegna þeirra framkvæmda sem falla innan þess ramma sem samkomulagið gefur," segir Stefán Jón Hafstein, varamaður í stjórn Orkuveitunnar. Hann segir að skoða verði fleiri möguleika en Helguvík. "Við viljum helst ekki taka þátt í því að ákveða hvort eða hvar álver eigi að rísa," segir Stefán Jón. Guðlaugur Þór Þórðarson, fulltrúi Sjálfstæðisflokks í stjórn Orkuveitunnar, segir ekkert ákveðið um afstöðu sjálfstæðismanna til málsins. "Við munum skoða málið þegar og ef það kemur upp á yfirborðið. Ég get ekkert sagt til um afstöðu okkar á þessari stundu," sagði Guðlaugur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×