Innlent

Margklofin stjórn

Ef fulltrúi Samfylkingarinnar í stjórn Orkuveitunnar leggst gegn orkusölu til fyrirhugaðs álvers í Helguvík þarf stuðning sjálfstæðismanna til þess að málið hljóti meirihlutasamþykki í stjórninni svo framarlega sem þeir sitja ekki hjá við atkvæðagreiðslu. Þegar er ljóst að Alfreð Þorsteinsson, stjórnarformaður Orkuveitunnar, mun vera hlynntur orkusölu til álvers en hann hefur tvöfalt vægi í stjórninni. Alls sitja sex í stjórn Orkuveitunnar og þarf af eru 5 kjörnir fulltrúar Reykjavíkurborgar en einn, Guðmundur Páll Jónsson, er kjörinn af bæjarráði Akraneskaupstaðar. Hann segist jákvæður á orkusölu til álvers. "Ég mun taka ákvörðun í þessu máli þannig að hagsmunir Orkuveitunnar verði sem mestir. Ég tel að við höfum gert vel með því að selja raforku til stækkunar álversins á Grundartanga og er því jákvæður á fyrirhugað álver í Helguvík," segir Guðmundur. Þannig standa því þrjú atkvæði gegn tveimur ef til atkvæðagreiðslu kemur og til að hljóta afgerandi stuðning þarf atkvæði sjálfstæðismanna. Þeir hafa hins vegar ekki tekið opinbera afstöðu í málinu enda hefur það ekki enn verið kynnt í stjórninni. Hitaveitan býst við samstarfi Júlíus Jón Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, segist ekki búast við öðru en að til samstarfs við Orkuveitu Reykjavíkur komi. "Við gerum ekki ráð fyrir öðru en að Orkuveita Reykjavíkur muni vilja starfa með okkur að því að uppfylla orkuþörf álversins í Helguvík ef til þess kemur. Við höfum að minnsta kosti ekki fengið skilaboð um annað. Við erum að framkvæma núna og munu geta framleitt um 145 megavött eftir stækkun en sú orka er öll seld þannig við þurfum að leita samstarfs við aðra aðila þar sem gert er ráð fyrir því að hið nýja álver muni þurfa um 350 megavött," segir Júlíus. Hann segir koma til greina að eiga samstarf við Landsvirkjun en Hitaveita Suðurnesja standi ekki í annarri trú en af samstarfinu við Orkuveituna verði. Iðnaðarráðherra kannar aðstæður Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, átti í gær fund með Árna Sigfússyni, bæjarstjóra í Reykjanesbæ, og kannaði aðstæður í Helguvík. Ljóst er að álver í Helguvík er mikið kappsmál fyrir Reykjanesbæ og hagsmunir bæjarins miklir. Allt ræðst þó ákvörðunin að því hvort tekst að fá þá orku sem þarf til verkefnisins og slíkt kann að ráðast í stjórn Orkuveitunnar sem fundar um málið 1. júní.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×