Innlent

Varar við byggð í eyjunum

Hugmyndir borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins um íbúðabyggð á eyjunum í kringum Reykjavík eru fáránlegar, segir Jóhann Óli Hilmarsson formaður Fuglaverndunarfélags Íslands. Jóhann segist byggja þessa skoðun á tveimur sjónarmiðum. Í fyrsta lagi séu eyjarnar alltof lágar. Hætt sé við að þær fari í kaf skelli á flóð og það verði ekkert einsdæmi: ,,Ég minni fólk á Básendaflóðið 1799, þar sem hálft Seltjarnarnesið fór undir vatn. Þetta gæti orðið hin íslenska Atlantis." Í öðru lagi sé lífríki eyjanna einstakt og fuglalíf fjölbreytt. Í Akurey séu til að mynda 30 þúsund lundapör: ,,Akurey er einstök. Eins og að vera á Breiðafirðinum, með íbúðablokkir allt í kring." Vilhjálmur Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í borginni, segir hugmyndir lagðar fram í þeim tilgangi að ræða þær: ,,Skipulagsmál eru þess eðlis að menn leggja fram tillögur og taka svo ákörðun að vel athuguðu máli. Skoðanir Jóhanns eru þarft innlegg í þá umræðu."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×