Innlent

Sala bankanna verði rannsökuð

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri-grænna, segir greinar Fréttablaðsins um sölu ríkisbankanna staðfesta það sem Vinstri-grænir héldu fram um að pólitísku handafli hefði verið beitt við söluna. Hann segir greinarnar varpa skýrara ljósi á ýmislegt í ferlinu og telur nauðsynlegt að þetta mál verði kannað betur. "Mér finnst eðlilegt að það fari fram óháð og opinber rannsókn á þessum vinnubrögðum. Þetta eru svo alvarlegar ásakanir um ámælisverð vinnubrögð að þetta verður að rannsaka til hlítar og svipta af þessu leyndarhnjúpnum," segir Steingrímur. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir greinar Fréttablaðsins renna stoðum undir það sem menn töldu sig vita að einkavæðingarferli bankanna hefði verið handstýrt af hálfu ráðherranna. Hún segir líka að fara þurfi betur ofan í saumana á málinu í framhaldinu. Þar horfir hún til fjárlaganefndar sem vinnur að rannsókn málsins að kröfu fulltrúa Samfylkingarinnar. "Ég tel að fjárlaganefnd eigi að halda yfirferð sinni um málið áfram og framhaldið ræðst síðan af því hvernig hún stendur að skoðun málsins og tekur á því sem rannsóknin leiðir í ljós." Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem sat í ráðherranefnd ríkisstjórnarinnar við undirbúning að sölu ríkisbankanna, vildi ekki tjá sig um skrif Fréttablaðsins um einkavæðingarferlið þegar eftir því var leitað en vísaði til pistils á heimasíðu sinni frá 18. apríl síðastliðnum. Ekki tókst að ná í Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra; aðstoðarmaður hans sagði hann úti á landi og ekki hægt að ná í hann. Sömu sögu var að segja af Davíð Oddssyni utanríkisráðherra, sem var í sumarbústað sínum. Þá tókst ekki heldur að hafa uppi á Geir H. Haarde fjármálaráðherra en hann var þó ekki utanbæjar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×