Innlent

R-lista viðræðum verður framhaldið

Vinstri hreyfingin grænt framboð vill halda áfram viðræðum um framtíð R-listans í Reykjavík. Félagsfundur hjá VG í Reykjavík samþykkti ályktun þessa efnis í gær en ljóst er að flokkurinn leggur þunga áherslu á jafna skiptingu sæta á hugsanlegum framboðslista R-listans. "Við reiknum með því að R-listinn verði mannaður samkvæmt jafnræði milli flokka eins og verið hefur hingað til og lítum á það sem eina af burðarstoðum listans", segir Þorleifur Gunnlaugsson varaformaður stjórnar VG í Reykjavík og fulltrúi flokksins í viðræðunefnd um framtíð R-listans. Hann segir hugmyndir Samfylkingarinnar um prófkjör ósanngjarnar þar sem flokkurinn hafi meðal annars stundað mikla smölun fólks í flokkinn að undanförnu og því yrði prófkjör aldrei haldið á jafnréttisgrunni. "Þar að auki vilja Vinstri-grænir að flokkarnir verði sýnilegir í þessi samstarfi en ekki ósýnilegir", segir Þorleifur. Hann segir skiptar skoðanir innan flokksins um stöðu óháðra á listanum og enga ákvörðun tekna um það mál. Páll Halldórsson fulltrúi Samfylkingarinnar í viðræðunefnd R-lista flokkanna hafði það eitt um ályktun Vinstri-grænna að segja að hann hafi alltaf gert ráð fyrir að viðræðum yrði haldið áfram og að hann muni svara öðrum tillögum Vinstri grænna á réttum vettvangi. Þorláki Björnssyni fulltrúi Framsóknarmanna í viðræðunefndinni finnst ákvörðun Vinstri-grænna sjálfsögð og það hefði komið honum á óvart ef sú ákvörðun hefði farið á annan veg. "Mér finnst þetta engin frétt," segir Þorlákur sem finnst sjálfsagt að láta reyna á viðræður um samstarf en ekki sé útséð með að það verði R-listi. Hann segir R-listann hafa lyft grettistaki í mörgum málum og að því leyti eftirsjá að honum ef ekki næst samkomulag. Hins vegar sé ekki hægt að dvelja við fortíðina og því sé spurningin nú hvort R-listinn eigi rétt á sér fyrir framtíðina. Næsti fundur viðræðunefndar R-listaflokkana verður á morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×