Innlent

30 flóttamenn til landsins

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að taka á móti allt að þrjátíu flóttamönnum á þessu ári. Um er að ræða konur og börn frá Kólumbíu sem hugsanlega verður komið fyrir á höfuðborgarsvæðinu. Flóttamannaráð Íslands hefur um skeið unnið í málinu og Árni Magnússon félagsmálaráðherra tók það fyrir á ríkisstjórnarfundi í morgun. Hann segir stjórnina hafa samþykkt að taka á móti allt að 30 flóttamönnum. Mest er um að ræða einstæðar konur og ekkjur með börn sem orðið hafa fyrir ásóknum í Kólumbíu og verið úrkurðaðar sem flóttamenn af Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna. Flestir flóttamenn sem hingað hafa komið eru frá Asíu og fyrrverandi lýðveldum Júgóslavíu. Félagsmálaráðherra segir ástæðuna fyrir því að nú koma flóttamenn frá Suður-Ameríku vera þá að Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna sé með sérstakt verkefni í gangi sem heitir „Women at risk“ og með þessu sé verið að taka þátt í því. Flóttamennirnir koma síðar á árinu, ef allt gengur eftir í ágúst eða september að sögn félagsmálaráðherra. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar er búið að ræða við Reykjavíkurborg um að taka við flóttamönnunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×