Innlent

Sakar frjálslynda um ósannindi

Gunnar Örn Örlygsson þingmaður segir formann Frjálslynda flokksins fara með ósannindi í yfirlýsingum um brotthvarf hans úr flokknum þegar hann fullyrðir að hvergi hafi gætt misræmis í málefnalegum áherslum milli Gunnars og þingflokksins. Hann vísar til bréfs sem hann skrifaði formanninum 18. nóvember síðastliðinn. Í því segist Gunnar ekki eiga samleið með flokknum nema til grundvallarbreytinga komi á störfum hans. Hann segir flokkinn hafa einangrað sig frá almennri umræðu um þjóðmál og telur honum líkt við gamla Alþýðubandalagið vegna upphrópana í hvert sinn sem talsmenn fyrirtækja opni munninn. "Flokkurinn er miklu frekar vinstri sinnaður en nokkurn tímann hægra megin við miðju. Flokkurinn hefur elt skottið á Steingrími og Össuri frá fyrsta degi þessa kjörtímabils," segir í bréfinu. Í Gullkistunni, málgagni Frjálslynda flokksins, sem út kom í gær biður Guðjón A. Kristjánsson formaður flokksmenn afsökunar á brotthvarfi Gunnars og segir sinnaskipti hans hafa komið mjög á óvart "því tveim tímum áður höfðum við rætt saman um þátttöku hans í eldhúsdagsumræðu daginn eftir, 10. maí". Gunnar Örn segir fullyrðingar Guðjóns og Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, varaformanns frjálslyndra, rangar um að hvergi og aldrei hafi bólað á málefnalegum áherslumun milli hans og þeirra. "Báðir hafa ítrekað komið fram og fullyrt þessi ósannindi. Það verða þeir að eiga við sig og getur varla talist þeim til framdráttar. Ég bið kjósendur Frjálslynda flokksins afsökunar á hverflyndi þeirra sem eftir sitja í veikum þingflokki frjálslyndra," segir Gunnar Örn og telur flokkinn hafa brugðist kjósendum sínum. Þá gefur hann lítið fyrir vangaveltur um tímasetningu úrsagnar sinnar og áréttaði að Guðjón hefði fyrstur fengið að vita af ákvörðun sinni. Þó freistandi hafi verið segist Gunnar hafa ákveðið að birta ekki umrætt bréf til Guðjóns þegar umskiptingarnar stóðu yfir. "Ég leyfði mér að trúa að forsvarsmenn frjálslyndra og sérstaklega Guðjón myndu mæta þessari ákvörðun minni með reisn. Því miður hefur hið öndverða komið í ljós. Ég vona að birting bréfsins muni hreinsa mig af þeim ósannindum sem eftirstandandi þingflokkur frjálslyndra hefur haldið uppi og afhjúpi þá um leið sem rangt höfðu við."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×