Innlent

Þorskkvóti verði minnkaður

Hafrannsóknarstofnunin leggur til að þorskkvótinn verði minnkaður um sjö þúsund tonn á næsta fiskveiðiári og að aflamark verði 198 þúsund tonn miðað við 205 þúsund tonn á yfirstandandi fiskveiðiári. Þetta kom fram á blaðamannafundi Hafrannsóknarstofnunar í dag þegar ný skýrsla um nytjastofna sjávar var kynnt. Í skýrslunni segir að þorskveiðar hafi lengi verið langt umfram tillögur stofnunarinnar sem án efa sé mikilvægasta skýringin á ástandi stofnsins í dag. Á síðusti fimm árum hafi viðmiðunarstofninn stækkað og hrygningarstofninn hafi einnig stækkað umtalsvert en allir árgangar frá 2001 séu hins vegar metnir lélegir, nema árgangur 2002 sem sé í tæpu meðallagi. Í skýrslunni kemur enn fremur fram að vegna lélegrar nýliðunar undanfarin ár bendi flest til þess að hrygningarstofn og viðmiðunarstofn stækki lítið á næstu árum verði farið eftir núgildandi aflareglu. Hafrannsóknastofnunin leggur til að aflareglu verði breytt þannig að veiðihlutfallið verði lækkað. Hvað aðra fiskistofna varðar er meðal annars lagt til að ýsukvótinn verði aukinn í 105 þúsund tonn og að ufsakvótinn verði aukinn í 80 þúsund tonn á fiskveiðiárinu 2005 til 2006.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×