Innlent

Dagný bendi á dæmi

Dagný Jónsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, telur að Kristinn H. Gunnarsson flokksbróðir hennar á Alþingi, sé vandamál í Framsóknarflokknum og þingmaðurinn tæti niður mál sem séu flokknum góð og þörf. Þessu hélt Dagný fram í RÚVAK í gær í umræðum um fylgi flokksins og skoðanakannanir. Kristinn H. Gunnarsson segir að orð Dagnýjar þarfnist rökstuðnings. "Mér finnst að hún ætti að rökstyðja mál sitt og benda á dæmi því til stuðnings. Afstaða mín til einstakra mála svo sem fjölmiðlamálsins, synjunar forseta á undirritun laganna og kvótakerfisins eru kannski ekki að hennar skapi en ég tel að skoðanakannanir hafi sýnt að flokksmenn séu frekar á þeirri línu sem ég hef lagt áherslu á," segir Kristinn. Hann segir ekki ástæðu til að endurskoða stöðu sína í Framsóknarflokknum. "Nei, ég held nú ekki en það liggur auðvitað fyrir hvernig ákveðnir hlutir hafa gerst. Ég held að það sé rétt að hafa áhyggjur af stöðu flokksins og ráðlegg mönnum að taka stefnu sem þeir verða svo að framfylgja," segir Kristinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×