Innlent

Á að flytja Bílddælinga til Kína?

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, stendur fast við þá skoðun að flytja beri aflaheimildir til sjávarbyggða sem ekki njóta annarra auðlinda. Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, kvaðst í Fréttablaðinu síðastliðinn þriðjudag ekki sjá hvernig útfæra ætti hugmyndir Kristins um flutning á 20 þúsund tonna kvóta til sjávarbyggða sem standa höllum fæti. "Ég held að það fari nærri lagi að við Halldór Ásgrímsson séum gersamlega á öndverðum meiði. Ég spyr: Er það eðlilegt að allur kvóti fari frá Stöðvarfirði til Dalvíkur? Fari frá Raufarhöfn til Akureyrar? Frá Bolungarvík til Grindavíkur? Frá Ísafirði til Akureyrar? Er það eitthvert lögmál í kerfinu sem má ekki hrófla við? Er það eitthvað sem menn taka bakföll yfir ef gerðar eru breytingar sem miða að því að kvóti og atvinna geti verið í þessum byggðarlögum áfram? Kvótakerfið er mannanna verk og með mannanna verkum er hægt að breyta því," segir Kristinn. Hann bendir á að það hafi verið stefna Framsóknarflokksins og ríkisstjórnarinnar í tíu ár að standa með opinberum aðgerðum fyrir atvinnuuppbyggingu sem grundvallast á því að nýta náttúruauðlindir heima í héraði. "Þannig hafa menn til dæmis ákveðið að nýta orkuna í fallvötnunum og lagt mikið á sig til þess að koma hlutunum í gang á Austurlandi og snúa íbúaþróuninni við. Og það hefur tekist. Það eru nokkur svæði sem hafa orðið útundan í þessum efnum, fyrst og fremst sjávarbyggðir. Ég segi: Það á að nýta auðlind þeirra, sem er fiskimiðin undan landi, til atvinnuuppbyggingar á þeirra svæði. Það á að ríkja sama stefna þar og er annars staðar á landinu þótt auðlindin sé önnur. Og ef menn vilja ekki breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu til að gera það mögulegt spyr ég: Hvaða atvinnuuppbyggingu ætlar ríkisstjórnin að beita sér fyrir á þessum stöðum á landinu? Störfin eru að fara úr landi. Störfin eru að leggjast niður vegna þenslu og hágengis krónunnar. Fólk er að missa vinnuna. Og hvað ætlar ríkisstjórnin að bjóða upp á fyrir þetta fólk. Á það að flytja til Kína?" spyr Kristinn H. Gunnarsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×