Innlent

Nýir óháðir aðilar skoði bankasölu

Formenn stjórnarandstöðuflokkanna telja það stórpólitísk tíðindi að bankasölumálið hafi komist á svo alvarlegt stig að hæfi sjálfs forsætisráðherra sé dregið í efa. Þeir segja óþægilega stöðu Ríksendurskoðunar í málinu kalla á þá spurningu hvort ekki sé tímabært að fá nýja óháða skoðun á sölu ríkisbankanna. Formenn, þingflokksformenn stjórnarandstöðuflokkanna og fulltrúar flokkanna í fjárlaganefnd funduðu um bankasöluna í dag og þá stöðu sem upp er komin í málinu eftir að Ríkisendurskoðandi ákvað að skoða mögulegt vanhæfi Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra í því. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, segir að það eitt og sér sé stór atburður í íslenskum stjórnmálum að mál skuli komast á svo alvarlegt stig að hæfi forsætisráðherra sé dregið í efa, en það geri málið risavaxið. „Í öðru lagi er sú undarlega staða að koma upp að Ríkisendurskoðun er að komast í þá óþægilegu aðstöðu að vera að endurskoða meira og minna sín eigin verk, fyrri skýrslur og fyrri niðurstöður, því að í að minnsta kosti tveimur skýrslum og álitsgerðum og minnisblöðum hefur ríkisendurskoðandi áður talið að þetta væri nú allt saman í ljóst og í lagi. Nú sér hann allt í einu ástæðu til þess að fara af stað á nýjan leik og það vekur auðvitað upp þá spurningu hvort ekki sé meira en tímabært að stíga skrefið til fulls og fá nýja, ítarlega, óháða rannsókn eða lögræðilega skoðun á þessu máli því Ríkisendurskoðun er greinilega komin í mjög óþægilega aðstöðu,“ segir Steingrímur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×