Innlent

Ótækt að stofnun skoði eigin verk

Lúðvíki Bergvinssyni, þingmanni Samfylkingarinnar, finnst ótækt að Ríkisendurskoðandi rannsaki sjálfur meint vanhæfi forsætisráðherra varðandi bankasöluna. Hann segir erfitt fyrir Ríkisendurskoðanda að rannsaka eigin verk. Lúðvík segir það gera Ríkisendurskoðanda erfitt fyrir þegar hann rannsakar meint vanhæfi forsætisráðherra við sölu ríkisbankanna að þurfa að fara yfir minnisblöð sem hann hafi sjálfur skrifað um það mál. Hann segir enn fremur að Ríkisendurskoðandi hafi þegar skilað skýrslum og sett fram fullyrðingar á fundum fjárlaganefndar sem geri það að verkum að hann hafi þegar mótað sér afstöðu. Þess vegna hljóti að vera erfitt fyrir hann að fara yfir málið núna því í reynd sé hann að fara yfir fyrri álit og eigin skýrslur og það setji menn alltaf í erfiða stöðu. Aðspurður hvort einhver annar hefði átt að rannsaka málið segir Lúðvík að hann telji að það hefði komið mjög vel til álita að leita álits hjá Ríkislögmanni. Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi tekur sér ekki frí um helgina. Hann hefur verið á skrifstofu sinni að fara yfir bankasöluna ásamt fleira starfsfólki embættisins. Sigurður var spurður hvenær rannsókninni lyki og hvort hún yrði kynnt á fundi fjárlaganefndar næstkomandi þriðjudag. Einu svörin sem fengust voru þau að málið væri í vinnslu og áfram yrði unnið að rannsókninni. Meira sagði hann ekki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×