Innlent

Ríkisendurskoðun meirihlutans

"Ríkisendurskoðandi setur niður með skýrslu sinni um hæfi Halldórs Ásgrímssonar í bankasölumálinu," segir Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins. "Ef ríkisendurskoðandi vill láta taka sig alvarlega er nauðsynlegt að hann hafi trúnað stjórnarandstöðunnar hverju sinni. Ríkisendurskoðun sem er bara endurskoðun fyrir meirihlutann er ekki trúverðug," segir Sigurjón. Hann bendir á að í skýrslunni hafi ríkisendurskoðandi haldið því fram að Halldór hafi hvergi komið nærri sölunni. "Halldór sagði hins vegar í fréttaviðtali fyrir skömmu að auðvitað taki ráðherrar ákvarðanirnar varðandi einkavæðinguna. Þar er Halldór í mótsögn við ríkisendurskoðanda," segir Sigurjón. "Þá er jafnframt mjög einkennilegt að forsætisráðherra skuli vera hvítþveginn á þeim forsendum að hann hafi ekki komið nálægt málinu þegar hann er sjálfur búinn að viðurkenna að hafa átt símafund með bjóðendum í bankann," segir Sigurjón. "Það er greinilegt að stjórnarflokkarnir hafa eitthvað að fela í þessu máli fyrst Fréttablaðið þurfti að fara með beiðnir sínar fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál til að fá aðgang að eðlilegum gögnum í málinu. Ef þeir hafa ekkert að fela af hverju afhenda þeir ekki Fréttablaðinu þessi gögn?" spyr Sigurjón.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×