Innlent

Vísar ásökunum kennara á bug

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra vísar því á bug að hún hafi hvorki viljað tala við kennara né hlustað á sjónarmið þeirra vegna áforma um að stytta nám til stúdentsprófs. Hún segir það slæmt ef forysta kennara vilji ekki vera með í því umfangsmikla ferli að endurskoða öll skólastigin því um sé að ræða mikla hagsmuni til framtíðar. Þorgerður Katrín segir yfirlýsingar Kennarasambandsins, um að slíta öllu samstarfi við ráðuneytið vegna styttingar framhaldsskólanáms koma á óvart. Hún sé mjög hissa því í rauninni hafi ekkert verkefni á vegum ráðuneytisins á undanförnum þremur árum verið unnið jafn vel og í nánum tengslum við alla hagsmunaaðila. „Það hefur verið mjög opinn aðgangur að þessu mikilvæga verkefni, sem er stytting námstíma til stúdentsprófs, og mikið samráð haft við alla hagsmunaaðila. Sjálf gerði ég mér far um það að fara í alla framhaldsskólana og tala milliliðalaust beint við kennara og skólastjórnendur þannig að ég hef fyrir mína parta lagt mjög mikla áherslu á það að eiga gott samráð við alla sem koma að þessu máli. Það er auðvitað sjálfsagt ef menn eru að sækjast eftir því að fá fund út af þessu tiltekna máli að verða við því við fyrsta tækifæri en formlegt erindi höfum við ekki fengið fyrr en í byrjun júní,“ segir Þorgerður Katrín.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×