Innlent

Markús og Guðmundur halda utan

Utanríkisráðuneytið hefur í dag staðfest að Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri og Guðmundur Árni Stefánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, taki við sendiherrastöðum - eins og fréttastofa Stöðvar 2 og Bylgjunnar greindi frá fyrir þremur vikum. Þá könnuðust hvorki Guðmundur Árni né Markús við að þetta stæði til og sögðust „koma af fjöllum“. Markús Örn fer til Ottawa í Kanada 1. nóvember en hefur störf hjá utanríkisráðuneytinu 1. september. Markús tekur við af Guðmundi Eiríkssyni sem mun starfa við háskóla Sameinuðu þjóðanna í Kostaríka um stund. Guðmundur Árni Stefánsson alþingismaður tekur við starfi sendiherra í Stokkhólmi sem Svavar Gestsson sinnti áður en Svavar flyst til Kaupmannahafnar. Þá lætur Jón Baldvin af störfum sendiherra í Helsinki og Hannes Heimisson, aðalræðismaður í New York, tekur við stöðu hans. Þorsteinn Pálsson lætur af störfum sem sendiherra í Kaupmannahöfn og Kjartan Jóhannsson sem sendiherra í Brussel en í stað hans kemur Stefán Haukur Jóhannesson, núverandi sendiherra í Genf.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×