Innlent

Vísar öllum ásökunum KÍ á bug

Kennarasambandið hefur slitið öllu samstarfi við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra um að stytta námstíma til stúdentsprófs. Kennarar segja ráðherra sýna þeim lítilsvirðingu með því að ræða hvorki við þá né svara ósk um viðræður. Ráðherra vísar öllum ásökunum á bug. Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambandsins, segir að með því að slíta samstarfinu sé verið að mótmæla afskiptaleysi ráðherra. Hann fullyrðir að árangurslaust hafi verið leitað eftir viðræðum og viðbrögðum hennar við sjónarmiðum sambandsins, en hún hafi ekki séð ástæðu til að svara nokkru. Slíkt framferði menntamálaráðherra sé fordæmlaust. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra segist algerlega undrandi á hinum stóru yfirlýsingum sem komi frá forystu Kennarasambandsins. Menntamálaráðuneytið hafi lagt sig sérstaklega fram, varðandi breytta námskipan til stúdentsprófs, við að hafa samstarf við forystu kennara, kennara sjálfa og alla hagsmunaaðila sem best. Í kjölfar ásakana Kennarasambandsins í dag kom ráðherra þeim skilaboðum áleiðis til forystu sambandsins að hún sé reiðubúin til viðræðna. Þá hafði hún bent á að eitt af aðildarfélögum sambandsins hefði óskað eftir fundi með ráðherra í febrúar á síðasta ári sem enn hafi ekki fengist svar við. Það er alrangt að sögn ráðherra. Henni hafi fyrst hafi borist beiðni um fund frá kennaraforystunni í byrjun þessa mánaðar. „Rétt verður að vera rétt og menn geti ekki komið fram með svona fullyrðingar og staðalausa stafi þar sem enginn fótur er í. Ég átta mig ekki á svona framkomu,“ segir Þorgerður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×