Innlent

Hæfismat ekki til dómstóla

"Í máli forsætisráðherra reynir á mat á hæfi og reglur þar að lútandi," segir Sigurður Líndal fyrrverandi lagaprófessor. Hann telur að hlutverk Ríkisendurskoðunar geti falist í skoðun á hæfisreglum. Í minnisblaði síðastliðinn mánudag komst ríkisendurskoðandi að því að ástæðulaust væri að véfengja hæfi Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra til afskipta af sölu Búnaðarbankans á sínum tíma. Ríkisendurskoðandi segir í sama minnisblaði að spurningum um hæfi eða vanhæfi valdhafa sé lögfræðilegt álitaefni sem löggjafinn hafi ekki ætlað Ríkisendurskoðun að leysa úr. "Hér þarf að meta hvort hagsmunir forsætisráðherra séu verulegir eða óverulegir, hvort hann fái ekki litið hlutlægt á málavöxtu og að hve miklu leyti hann hafi komið nálægt þessu. Ég held að niðurstaða Ríkisendurskoðunar hljóti að standa nema Alþingi taki aðra ákvörðun." Sigurður Líndal bendir jafnframt á að heimild sé í stjórnarskrá lýðveldisins til þess að skipa rannsóknarnefndir. "Það er afar sjaldan gert en slíkar nefndir hafa vald af ýmsum toga. Þótt stjórnmálaflokkur skipaði lögfræðinga til að rannsaka málið yrði að tilgreina og leggja fyrir þá ákveðnar forsendur. Þeir geta ekki yfirheyrt menn, kallað þá fyrir eða heimtað skýrslur eins og rannsóknarnefnd mundi geta gert eða dómstólar," segir Siguður og tekur fram að málið sé ekki á því stigi. "Ég sé ekki hvernig ætti að standa að þessu nema Alþingi skipaði formlega rannsóknarnefnd ef ástæða þætti til. Alþingi yrði að samþykkja slíkt og ætli séu nokkrar líkur til þess. Rannsóknarnefnd var síðast skipuð af Alþingi árið 1955. Ef ekki kemur til kasta rannsóknarnefndar eða dómstóla er lítið hægt að gera." Sigurður bendir á að fræðilega sé fyrir hendi ákæruvald Alþingis og landsdómur. "Brjóti ráðherra af sér eru til lög um ráðherraábyrgð og landsdómur dæmir í slíkum málum. Hann hefur að vísu aldrei komið saman í liðlega eina öld eða frá stofnun. Það hefur hins vegar gerst til dæmis í Danmörku þar sem ríkisréttur hefur verið kallaður saman."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×