Innlent

Þrjá milljarðar fram úr fjárlögum

Í ráðherratíð Guðna Ágústssonar hefur landbúnaðarráðuneytið farið um 3,3 milljarða fram úr fjárlögum. Guðni Ágústsson tók við embætti 1999 en frá þeim tíma hefur ráðuneytið farið fram úr fjárlögum að meðaltali er nemur um 650 milljónum króna árlega. Ingimar Jóhannsson, fjármálastjóri landbúnaðarráðuneytisins, segir að framúrkeyrslan stafi einna helst af rekstrarhalla landbúnaðarskólanna og embættis yfirdýralæknis en af ólíkum ástæðum þó. Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum um framkvæmd fjárlaga á síðasta ári var landbúnaðarráðuneytið það ráðuneyti sem fór hlutfallslega mest fram úr fjárlögum. Hann segir að embætti yfirdýralæknis hafi tapað um 60 milljónum vegna gjaldþrots sláturhúsa fyrir nokkrum árum. "Í tilviki yfirdýralæknis er því ekki um árvissa framúrkeyrslu að ræða heldur tap sem velt hefur verið á milli ára," segir Ingimar. Aðspurður segir hann að ráðuneytið hafi margoft sóst eftir því að tapið yrði hreinsað upp en það hafi enn ekki gengið eftir. "Hvað varðar skólana má deila um það hvort fjárveitingar séu of lágar eða hvort skorti á forgangsröðun verkefna innan skólanna," segir Ingimar. Hann segir að þegar Landbúnaðarskólanum á Hvanneyri hafi verið breytt í háskóla hafi ekki nægilegar fjárveitingar fylgt. "Þar hefur skapast uppsafnað vandamál síðustu þriggja til fjögurra ára," segir Ingimar en bætir við að sífellt sé verið að reyna að vinna á vandanum. "Í raun hefur landbúnaðarráðuneytið verið rekið á fjárlögum á árunum 2001 til 2001 ef frá er talið embætti yfirdýralæknis og skólarnir," bendir Ingimar á. Samkvæmt reglugerð um framkvæmd fjárlaga ber ráðuneytum að bregðast við ef útgjöld verða meiri en fjögur prósent umfram heimildir. Ingimar segir að sífellt sé verið að bregðast við samkvæmt reglugerðinni, fara yfir einstaka fjármálaliði og hvetja til sparnaðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×