Innlent

Meiri lausatök í góðu árferði

Þegar vel árar eru meiri lausatök á fjármálastjórn en ella að mati Davíðs Oddssonar, starfandi forsætisráðherra, sem telur margt til í gagnrýni Ríkisendurskoðunar á framkvæmd fjárlaga. Ríkisendurskoðandi segir alvarlegan misbrest í framkvæmd fjárlaga í nýrri skýrslu og gagnrýnir ráðuneyti fyrir að bregðast illa við ítrekuðum framúrkeyrslum fjölmargra stofnana. Davíð Oddsson segir í sumum tilfellum við fjárveitingarvaldið að sakast þegar áætlanir séu ekki raunhæfar. Gott sé að fá ábendingar því betur megi eflaust gera og endurskoða þurfi reglulega til hvaða aðgerða sé gripið. Undanfarin ár hafa forstöðumenn stofnana fengið meira vald, til að mynda í launamálum. Davíð telur suma forstöðumenn hins vegar eiga erfitt með slíkar ákvarðanir í ljósi nálægðarinnar. Ríkisendurskoðun nefnir sem dæmi að hægt sé að stöðva fjárveitingar til þeirra opinberu stofnana sem ítrekað eyða meiru en þeim sé skammtað. Slíkt telur formaður BSRB hins vegar furðulega ósvífni og segir ekki ganga að láta almenna launþega gjalda fyrir stefnu stjórnvalda. Aðspurður hvort sömu lögmál ættu ekki að gilda hjá opinberum stofnunum og einkafyrirtækjum, að ekki sé hægt að eyða meira fé en til er, segir Davíð Oddsson að kerfið í Bandaríkjunum sé þannig að ef fjárveitingar séu ekki fyrir hendi eða renni út stöðvist starfsemin algjörlega. Ekki hafi verið farnar slíkar leiðir hér á landi en kannski þurfi að hafa meiri aga á hlutunum. Davíð bendir þó á að skýringin sé þó örugglega sú að þegar ríkissjóður sé rekinn með margra milljarða afgangi þá verði lausatökin aðeins meiri en ella. Menn segi: „Við höfum borð fyrir báru og getum bjargað þessu.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×