Innlent

Sjálfstæðisflokkur bætir við sig

Sjálfstæðisflokkurinn bætir verulega við sig fylgi í suðvesturkjördæmi samkvæmt könnun Gallup frá því byrjun mánaðarins. Hann hefur samkvæmt könnuninni 44 prósenta fylgi í kjördæminu en hlaut 38,5 prósent fylgi í kosningunum 2003. Samfylkingin fengi 31,9 prósent en fékk 32,8 þegar kosið var, Vinstri-grænir 10,1 og bæta við sig tæpum fjórum prósentustigum en hann fékk 6,2 í kosningum, Framsóknarflokkur fengi 7,9 prósent en fékk 14,9 prósent áður og Frjálslyndir 6,1 prósent sem er aðeins minna en flokkurinn fékk í kosningum en þá fékk hann 6,7 prósent. Alls svöruðu 244 í kjördæminu en könnunin var hluti af þjóðarpúlsi Gallup og voru niðurstöður hans um fylgi stjórnmálaflokkanna birtar á landsvísu í byrjun mánaðarins. Hafa ber í huga að þjóðarpúls Gallup mældi fylgi til stjórnmálaflokka á landsvísu og voru niðurstöðurnar aðeins birtar fyrir landið í heild sinni. Fréttablaðið hefur fengið gögn sem unnin hafa verið úr könnuninni og sundurliðuð fyrir hvert kjördæmi. Samanburður af þessu tagi getur verið ónákvæmur þar sem um er að ræða tiltölulega lágt svarhlutfall í hverju kjördæmi fyrir sig. Í suðurkjördæmi fengi Sjálfstæðisflokkurinn 38,7 prósent fylgi en hafði 29,2 prósent í síðustu kosningum og bætir því við sig tæpum 10 prósentum. Samfylkingin fengi 32,9 prósent en fékk 29,7 prósent í kosningum, Vinstri-grænir fengju 9,1 prósent en 4,7 prósent þegar kosið var, Framsóknarflokkurinn 14,6 prósent en 23,7 prósent í kosningunum og Frjálslyndir 4,9 prósent en höfðu 8,7 prósent í síðustu kosningum. Í suðurkjördæmi var byggt á 154 svörum. Niðurstöður könnunarinnar fyrir norðvestur- og norðausturkjördæmi verða birtar í Fréttablaðinu á morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×