Innlent

Hrun Framsóknar í norðurkjördæmum

Framsóknarflokkurinn tapar rúmlega tuttugu prósentustiga fylgi í norðausturkjördæmi samkvæmt könnun Gallup frá því í byrjun mánaðarins. Flokkurinn mælist nú með 12,3 prósenta fylgi en í síðustu alþingiskosningum hlaut hann 32,8 prósent. Hefur hann því tapað 20,5 prósenta fylgi í kjördæminu frá því í kosningunum ef marka má könnun Gallup. Samfylking mælist með mest fylgi í kjördæminu eða 31 prósent og eykur fylgi sitt úr 23,5 prósentum, Sjálfstæðisflokkur fengi 29 prósent en hlaut 23,5 prósent í kosningum, Vinstri-grænir fengju 23,7 prósent og fengu 14,1 prósent í kosningum og Frjálslyndir mælast með 3,4 prósent en höfðu 5,6 prósent í síðustu kosningum. Alls tóku 144 afstöðu í norðausturkjördæmi en könnunin var hluti af þjóðarpúlsi Gallup og mældi afstöðu til stjórnmálaflokka á landsvísu í síðasta mánuði. Vera má að lítið úrtak í hverju kjördæmi endurspegli ekki nægjanlega vel afstöðu til stjórnmálaflokkanna í hverju kjördæmi fyrir sig. Í könnun Gallup mældist fylgi Framsóknarflokksins í sögulegu lágmarki en flokkurinn tapar mestu fylgi í norðausturkjördæmi þegar litið er til allra kjördæma. Í norðvesturkjördæmi bæta Vinstri-grænir og Samfylkingin við sig verulegu fylgi. Vinstri-grænir fá samkvæmt könnuninni 16,1 prósent en fengu 10,6 prósent í kosningu og Samfylking fengi 32,4 prósent en hlaut 23,2 prósent í alþingiskosningum. Framsóknarflokkurinn mælist með 11,9 prósent en hafði 21,7 prósent í kosningum og Frjálslyndi flokkurinn mælist með 10,6 prósent fylgi en fékk 14,2 prósent í síðustu kosningum. Alls tóku 103 einstaklingar afstöðu í norðvesturkjördæmi. Úrtakið í könnun Gallup var 2.344 manns fyrir landið allt og svarhlutfall 61 prósent.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×