Innlent

Varnarsamningur enn á umræðustigi

Fyrstu umferð viðræðna íslenskra og bandarískra stjórnvalda um framtíð varnarsamningsins, lauk í Washington í gær án nokkurs teljandi árangurs. Þrátt fyrir það er undirbúningur vegna fyrirhugaðra breytinga á Keflvíkurstöðinni þegar hafinn. Tíu manna sendinefnd þriggja íslenskra ráðuneyta gerði grein fyrir afstöðu ríkisstjórnarinnar á fundum með Bandaríkjamönnum í vikunni. Afstaða Bandaríkjamanna mun ekki hafa breyst jafn mikið og íslenskir ráðamenn gerður sér vonir um. Ekki fæst uppgefið hjá utanríkisráðuneytinu hvaða kröfur eða hugmyndir voru lagðar fram, né heldur hvað ber í milli. Ástæða þess er sögð sú að það þjóni ekki tilgangi þar eð samningaferli standi yfir. Næstu samningafundir milli þjóðanna um varnarsamstarfið eru fyrirhugaðar í september. Vitað var fyrir upphaf viðræðna að þær myndu fyrstu og fremst snúast um kostnað og skiptingu hans. Bandaríkjamenn vilja að Íslendingar taka mun meiri þátt í rekstri flugvallarins og annarra þátta varnarstöðvarinnar sem notaðir eru bæði af hernum og borgaralegum aðilum, hvort sem er fyrirtækjum eða hinu opinbera. Ekki mun hins vegar hafa verið rætt um hvort að þær fjórar þotur, sem að jafnaði eru á Keflavíkurstöðinni, verði látnar fara. Fréttastofan hefur heimildir fyrir því að í næstu viku sé væntanleg til Keflavíkur opinber nefnd frá bandaríska flughernum til að kynna á sér rekstur stöðvarinnar. Miklum gögnum hefur verið safnað undanfarið um reksturinn, sem heimildarmenn fréttastofu segja að séu ætluð flughernum. Mun takmarkið vera að flugherinn taki yfir rekstur stöðvarinnar þar sem flotinn sér engan hag í stöðinni lengur. Hugsanlegt er að í framtíðinni verði Keflavíkurstöðin notuð sem æfingabækisstöð fyrir þotuflugmenn bandaríska hersins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×