Innlent

Vonlaust að þagga niður í Össuri

Össur Skarphéðinsson, þingmaður og fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, segist ekki útiloka að hann gefi kost á sér sem borgarstjóraefni Samfylkingarinnar í Reykjavík. "En mér hefur ekki flogið þetta í hug. Það er skemmtilegt hvað menn eru hugmyndaríkir. Ég er þingmaður borgarbúa og ég hef mikinn áhuga á málefnum Reykjavíkurlistans. Ég vil ekki að þau málefni verði lokuð af í bakherbergjum flokksmaskínanna. Ég hef sterkar skoðanir á því sem Reykjavíkurlistinn hefur vel gert og líka á því sem mér finnst þurfa að lagfæra. Ég læt engan þagga niður í mér hvort sem það varðar málefni gæslukvenna eða viðhorf mín um að allir stuðningsmenn listans eigi að fá kost á að velja frambjóðendur eða borgarstjóraefni," segir Össur. Aðspurður um hvort hann myndi íhuga að gefa kost á sér ef til hans yrði leitað segir Össur. "Þetta kemur svo algjörlega flatt upp á mig að ég hef ekkert meira um þetta að segja í bili." Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir að Össur geti tekið þátt í prófkjöri eins og aðrir. "Ég hef alltaf verið talsmaður þess að það verði sem opnast val og víðtækust þátttaka um það hvernig Reykjavíkurlistinn verður til og það hlýtur að fela í sér að Össur getur verið með eins og allir aðrir. En eins og öllum er kunnugt hefur enginn reynt að þagga niður í honum síðustu daga enda er það vonlaust," segri Stefán Jón. Steinunn V. Óskarsdóttir, borgarstjóri og borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir að mögulegt framboð Össurar hafi engin áhrif á hennar áform og hún hafi lítið um það að segja. "Það er algjörlega mál þeirra sem vilja fara fram. Mér finnst mestu máli skipta að sá sem verður borgarstjóraefni R-listans geti unnið með samstarfsflokkunum að því gefnu að af framboði R-listans verði og það tel ég mig geta," segir Steinunn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×