Innlent

Meirihlutinn tapar fylgi

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur fá samanlagt tæplega 47 prósenta fylgi samkvæmt könnun sem IMG Gallup framkvæmdi í mars síðastliðnum en fylgi flokkanna var tæp 60 prósent í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Framsóknarflokkurinn tapar einum manni, fær tvo, en Sjálfstæðisflokkurinn fær áfram fjóra bæjarfulltrúa þrátt fyrir að fylgi flokksins minnki verulega frá síðustu kosningum. Í bæjarstjórn Akureyrar eru ellefu fulltrúar og því heldur núverandi meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks samkvæmt könnun Gallup. Listi fólksins á Akureyri fær engan mann kjörinn í bæjarstjórn en listinn fékk tvo menn kjörna í kosningunum fyrir þremur árum. Samfylkingin bætir verulega við sig fylgi og fær þrjá bæjarfulltrúa í stað eins og sömuleiðis vex fylgi Vinstri grænna umtalsvert og fá þeir tvo bæjarfulltrúa en hafa nú einn. Samkvæmt könnuninni er 11. bæjarfulltrúinn Sjálfstæðismaður en næstur á eftir honum er fjórði bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar. Þar á eftir kemur fyrsti maður af Lista fólksins. Þetta kemur fram í lífskjarakönnun sem IMG Gallup framkvæmdi fyrir Akureyrarbæ í mars síðastliðnum. Alls voru 383 einstaklingar spurðir hvaða flokk eða lista þeir myndu kjósa ef gengið hefði verið til kosninga í mars og gáfu 205 eða rúm 53 prósent upp afstöðu sína. Sigríður Ólafsdóttir, hjá IMG Gallup á Akureyri, segir tilganginn með spurningunni um afstöðu fólks til stjórnmálaaflanna á Akureyri ekki hafa verið að mæla fylgi flokkanna í bænum. "Spurningin var fyrst og fremst bakgrunnsbreyta í lífskjararannsókninni og á þeirri forsendu fór hún inn," segir Sigríður. Oddur Helgi Halldórsson, oddviti Lista fólksins, segist hafa mikla trú á skoðanakönnunum. "Það er hins vegar ekkert nýtt að minn listi kemur illa út í svona könnunum enda er lítið fjallað um Lista fólksins í fjölmiðlum á milli kosninga. Í upphafi baráttunnar fyrir síðustu kosningar þá mældumst við með 3,2 prósent fylgi en fengum 17,8 prósent. Í þessari könnun fengum við 6,3 prósent og það er einhver besta útkoma sem við höfum fengið í skoðanakönnun. Því sef ég alveg rólegur," segir Oddur Helgi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×