Innlent

Skattar lækka um tvö prósent

Tekjuskattur lækkar um tvö prósentustig um næstu áramót samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Þá er einnig hafin vinna við að lækka virðisaukaskatt og má búast við ákvörðun á næstunni um hversu miklar lækkanir er um að ræða. Geir H. Haarde fjármálaráðherra undirritaði í gær fyrir hönd ríkisins samning um sölu Símans til Skipta ehf. undir forystu Exista og KB banka. Hann sagði við undirritun samningsins að söluverðmætinu yrði varið til hagsbóta fyrir allan almenning. Aðspurður um hvort peningunum yrði varið til skattalækkana sagði Geir: "Þetta eru peningar sem koma í eitt skipti og það er ekki hægt að verja þeim til varanlegrar ráðstöfunar, hvorki reksturs né annars þess háttar þannig að ég tel ekki raunhæft að nota þetta fjármagn til að fjármagna skattalækkanir sem ætlað er að séu varanlegar. Við erum með skattalækkunarprógramm í gangi sem gengur ágætlega þó að auðvitað megi og eigi að gera enn meira í þeim efnum, en við gerum það ekki með þessum peningum," sagði Geir. Aðspurður um hvort búast mætti við að á næstunni gerðist eitthvað í þeim málum sem snúa að skattalækkunum sagði Geir: "Ég reikna með því." Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er þegar hafin vinna sem snýr að því að lækka skattprósentu virðisaukaskatts og hefur verið rætt um að neðra skattþrep virðisaukaskatts lækki verulega. Neðra skattþrepið er fjórtán prósent og leggst einkum á matvæli. Þá mun þegar hafa verið ákveðið að leggja til að tekjuskattur lækki um allt að tvö prósentustig strax um næstu áramót, nái þær tillögur sem nú er unnið að fram að ganga. Búast má við því að tillögurnar verði á dagskrá fjárlaganefndar þegar þing kemur saman í haust.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×