Innlent

Segir ummæli Baldurs fáránleg

Sólveig Pétursdóttir segist ekki hafa fordóma gagnvart samkynhneigðum. Hún segir ummæli Baldurs Þórhallssonar, dósents í stjórnmálafræði, þess efnis vera fáránleg og ósanngjörn og ljóst að hann sé að slá pólitískar keilur. Í fréttum Stöðvar tvö í fyrra dag sagði Baldur Þórhallsson, dósent í stjórnmálafræði, fordóma Sólveigar Pétursdóttur í garð samkynhneigðra hafa verið þess valdandi að hún vildi ekki leyfa eða samþykkja frumættleiðingu samkynhneigðra. Baldur sagði að fordómar hennar hefðu jafnframt orðið til þess að margir samkynhneigðir hættu að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Sólveig segist hissa á þessum ummælum Baldurs. Henni finnist furðulegt fyrir mann í hans stöðu að haga málfutningi sínum með þessum hætti. Hann ráðist á ríkisstjórnina, Sjálfstæðisflokkinn og hana. Fullyrðingarnar séu fáránlegar. Sólveig segir að í umræðunni um heildarlög um ættleiðingu árið 2000 hafi hún lýst því yfir að frumvarp til breytinga á lögum um staðfesta samvist væri í undirbúningi. Það hafi síðar gengið í gegn. Þá gæfist tilefni til þess að skoða sérstaklega stöðu þeirra sem væru í staðfestri samvist með tilliti til stjúpættleiðinga. Nú hafi það einnig fengist fram. Sólveig segist jákvæð gagnvart því að reynt verði að ganga eins langt og hægt er svo samkynhneigðir fái að frumættleiða. Hún bendir enn fremur á að í umræðunni hafi verið talað um frumættleiðingu og tæknifrjógvun og fleira. Sólveig vildi ekki svara með jái eða neii þegar hún varð spurð hvort henni fyndist að samkynhneigðir ættu að fá að ættleiða. Tíma þyrfti til að skoða þau mál til hlítar. Þá notaði hún tækifærið og óskaði hommum og lesbíum til hamingju með daginn í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×