Innlent

Getur brugðið til beggja vona

Viðræðunefnd um R-lista kemur saman í dag en á fundi hennar kann framtíð Reykjavíkurlistans að ráðast. Fulltrúar Framsóknarflokksins hafa lagt fram mismunandi tillögur í sumar og lýst vilja til áframhaldandi samstarfs. Fulltrúar Vinstri-Grænna hafa frá upphafi lagt áherslu á jafnræði milli flokkana innan R-listans enda sé listinn sjálfstæður framboðslisti. Fulltrúar Samfylkingarinnar hafa lítið tjáð sig um viðræðurnar en bent á mikið fylgi flokksins og stærð hans. Tillaga sem tíðust er nefnd um áframhaldandi samstarf gerir ráð fyrir því að Framsóknaflokkurinn fái tvö af efstu átta sætunum en Samfylkingin og Vinstri-Grænir þrjú sæti hvor. Í krafti stærðarinnar komi borgarstjóraefnið úr röðum Samfylkingarinnar. Verði niðurstaðan á þessa leið þarf Samfylkingin að velja borgarstjóraefni úr sínum röðum. Fylgiskannanir benda til þess að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík hafi aukið fylgi sitt að undanförnu og hafi nú ívið betri stöðu en óbreyttur R-listi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×