Innlent

Öryggissjónarmið ráði banni

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra segir að einungis öryggissjónarmið ráði því að synjað sé um leyfi til þess að flytja inn nautakjöt frá Argentínu þrátt fyrir að yfirdýralæknir hafi gefið á það grænt ljós. Grundvallarreglan er sú að það má ekki flytja hrátt kjöt til landsins. Landbúnaðarráðherra getur veitt undanþágu frá þessu og hefur raunar gert í þónokkrum tilfellum. Ítrekaðar tilraunir hafa verið gerðar fyrir að fá leyfi fyrir innflutningi á nautakjöti frá Suður-Ameríku, meðal annars frá sunnanverðri Argentínu. Yfirdýralæknir, sem er faglegur umsagnaraðili, hefur ekkert haft við það að athuga. Aðspurður hvers vegna hann hafi synjað innflytjendum kjötsins um leyfi segir Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra að aldrei hafi verið flutt inn kjöt frá Suður-Ameríku og það liggi fyrir að í Argentínu sé gin- og klaufaveiki til staðar. Skylda landbúnaðarráðuneytisins sé að verja dýr og menn hér á landi og ráðuneytið hafi einfaldlega talið innflutning áhættusaman. Spurður hvort þetta væri liður í að verja tekjur íslenskra bænda segir Guðni að innflytjendur þurfi að flytja inn frá öruggum löndum. Kjöt sé flutt inn frá nálægum löndum og Nýja-Sjálandi sem séu örugg. Þetta snúi þó ekki að því heldur því að það væri gríðarlegt áfall fyrir fólk og fénað hér á landi ef hingað bærist gin- og klaufaveiki. Guðni minnti á þau uppþot sem urðu þegar leyft var að flytja inn nautalundir frá Írlandi, en skömmu síðar kom upp kúariða í Evrópu. Hann sagðist nokkuð viss um að þjóðin vildi öll að varlega væri farið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×