Innlent

Flokkarnir ákveði framtíð R-lista

Fulltrúar Vinstri grænna í viðræðum um framhald R-listans ákváðu í gær að skila umboði sínu til stjórnar flokksins í Reykjavík þar sem ekki náðist samkomulag um sameiginlegt framboð flokkanna fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Nefnd R-lista flokkanna um frekara samstarf fyrir borgarstjórnarkosningarnar næsta vor sat langan fund með hléum í gærkvöldi án þess að ná samkomulagi. Umboð fulltrúa Framsóknarflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna til samninga í nefndinni er mismunandi en endanlegt ákvörðunarvald um viðræðuslit liggur hjá kjördæmisráðum og flokksfélögunum í Reykjavík. Þegar Fréttablaðið fór í prentun lá fyrir að fulltrúar Vinstri grænna ætluðu að skila umboði sínu til frekari samningaviðræðna til flokksstjórnarinnar í Reykjavík. Ákveðið er að fulltrúarnir þrír hitti stjórn Vinstri grænna í Reykjavík á hádegi í dag. Fulltrúar Vinstri grænna gátu ekki samþykkt nýja tillögu Samfylkingarinnar um að Vinstri grænir og Framsóknarflokkur fengju tvo fulltrúa hvor um sig í sjö efstu sætin en Samfylkingin þrjá. Tillagan kvað einnig á um að gengið yrði til sameiginlegs prófkjörs um áttunda mann sem jafnframt yrði borgarstjóraefni R-listans. Vinstri grænir telja tillöguna vera brot á jafnræðisreglu meðal flokkanna sem að R-listanum standa auk þess sem þeir segja tillögu um sameiginlegt val á borgarstjóraefni afar óaðgengilega. Fulltrúar Vinstri grænna höfðu áður fallist á tillögu um að Samfylkingin fengi þrjá fulltrúa af átta efstu sætunum á R-listanum, en Framsóknarflokkur og Vinstri grænir tvo hvor um sig. Jafnframt gátu þeir fellt sig við að Samfylkingin fengi borgarstjóraefnið í krafti stærðar flokksins. Framsóknarflokkur gat samþykkt báðar tillögurnar fyrir sitt leyti og telja talsmenn flokksins að ágreiningurinn standi fyrst og fremst milli Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Allt bendir til þess að framtíð R-listasamstarfsins ráðist innan flokksfélagana í Reykjavík en ekki innan viðræðunefndarinnar. Samþykki stjórnir Reykjavíkurfélög flokkanna þriggja viðræðuslit þarf borgarstjórnarflokkur R-listans að búa við þær aðstæður fram að borgarstjórnarkosningum næsta vor.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×