Innlent

Ánægð með stuðning

Sólveig Pétursdóttir, formaður utanríkismálanefndar alþingis, lýsir ánægju með árangurinn sem náðst hefur við að afla stuðnings við framboð Íslands til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna árin 2009 og 2010. Greint var frá því í Fréttablaðinu í gær að þegar hefðu fengist loforð um stuðning frá fjörutíu til fimmtíu þjóðum. "Þetta sýnir hversu virk utanríkisþjónustan er. Það er mjög gott að hafa stjórnmálasamband við sem flest ríki og þarf ekkert að tengjast þessu framboði sérstaklega. Reynsla okkar kennir að ekki er alltaf á vísan að róa þótt ríki hafi lofað stuðningi," sagði Sólveig í samtali við Talstöðina í gær. Sólveig segir að Íslendingar gætu látið gott af sér leiða með aðild að öryggisráðinu. "Við gætum þurft að taka ákvarðanir sem fara gegn okkar utanríkisstefnu og þetta getur orðið mjög kostnaðarsamt." Á næsta ári eru sextíu ár frá því Ísland öðlaðist aðild að Sameinuðu þjóðunum og þá gæti verið góð tímasetning til þess að taka ákvörðun um málið. "Sjálfsagt er þó betra að taka hana fyrr en seinna," segir Sólveig Pétursdóttir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×